
Þéttsetið var á fyrstu tveimur fundum fundaraðar atvinnuvegaráðherra og Bændasamtakanna sem ber heitið „Frá áskorunum til lausna“. Fundirnir voru haldnir í gær í félagsheimilunum Félagslundi í Flóahreppi og Holti á Mýrum.
Húsfyllir var á báðum fundum og komu fundargestir sínum spurningum og hugleiðingum varðandi stöðu íslensks landbúnaðar á framfæri við Hönnu Katrínu Friðriksson, atvinnuvegaráðherra og Trausta Hjálmarsson, formann bændasamtakanna.

Nýliðun í landbúnaði, framtíð stuðningskerfis og tollamál voru meðal þeirra málefna sem brenna hvað mest á bændum og spunnust af því líflegar umræður. Fundargestum gafst jafnframt tækifæri til að skrá sig til þátttöku í rafrænum umræðuhópum í rannsókn sem unnin verður á vegum atvinnuvegaráðuneytisins.
Hringferðin nýtist einnig til að heilsa upp á bændur og kynna sér þeirra búrekstur, á Suðurlandi heimsótti ráðherra bændurna Magnús Örn Sigurjónsson og Hugrúnu Sigurðardóttur sem búa í Eystri-Pétursey í Mýrdalshreppi.

„Það er er mikilvægt að fá fram hugmyndir bænda til að finna lausnir fyrir framtíð landbúnaðar á Íslandi,“ sagði atvinnuvegaráðherra. „Stefna ríkisstjórnarinnar í landbúnaði er skýr, áhersla er lögð á að ýta undir vöxt og verðmætasköpun í matvælaframleiðslu. Á kjörtímabilinu verður gripið til aðgerða til að efla nýsköpun í landbúnaði, draga úr orkukostnaði garðyrkjubænda og auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti. Við ætlum okkur að breyta jarðalögum til að vinna gegn samþjöppun og stuðla að nýtingu á ræktarlandi til búrekstrar. Og við munum áfram vinna að þeim grundvallarsjónarmiðum sem birtast í landbúnaðarstefnu fyrir Ísland til ársins 2040. “
Í dag funda Hanna Katrín og Trausti á Eiðum og í Þingeyjarssveit og á morgun verða fundir á Akureyri, Blöndósi og í Borgarnesi.