Fullt út úr dyrum á Örkinni

Fullt var út úr dyrum á Hótel Örk í kvöld þar sem fram fór opinn íbúafundur um skjálftavirkni á Hellisheiði vegna niðurdælingar affallsvatns frá Hellisheiðarvirkjun.

Ljóst var að margir Hvergerðingar voru mættir til að fá útskýringar á því við hverju megi búast í framhaldinu. Á fundinum kynntu fjórir fulltrúar frá Orkustofnun, OR og Veðurstofunni samantekt sína um skjálftavirknina og fóru yfir í máli og myndum.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, var afar ánægð með mætinguna á fundinn og sagði hún í samtali við sunnlenska.is að uppúr standi að upplýsingar sem lágu fyrir við upphaf framkvæmda, og voru grundvöllur fyrir starfsleyfi og umhverfismati, ríma alls ekki við þann veruleika sem Hvergerðingar standa nú frammi fyrir.

„Bæði OR og Orkustofnun vissu að niðurdælingin myndi hafa þessi áhrif en samt voru engar upplýsingar gefnar um þetta. Þessi staðreynd veldur eðlilega reiði hjá bæjarbúum,“ segir Aldís.

„Það var síðan merkilegt að heyra að OR lýtur ekki á þessa jarðskjálfta sem manngerða, heldur telja þeir að skjálftarnir hefðu komið hvort sem er. Niðurdælingin hafi einungis flýtt þeim. Flestir fundarmenn voru ósammála þessari staðhæfingu enda nokkuð augljóst að við værum ekki að upplifa jarðskjálftana núna nema af því að verið er að dæla niður affallsvatni,“ bætti Aldís við.

Fyrri greinFljúgandi trampólín á Selfossi
Næsta greinFurðuverur og tröll í Gullkistunni