Fullt út úr dyrum en fáir frambjóðendur

Hinn skeleggi Stefán Einar Stefánsson stýrði fundinum á Sviðinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Mikill áhugi var fyrir leiðtogakappræðunum fyrir alþingiskosningarnar sem Sviðið á Selfossi stóð fyrir í kvöld. Svo mikill, að bókstaflega var fullt út úr dyrum og um 400 gestir á fundinum.

Það vakti mikla athygli að aðeins fjögur framboð sendu fulltrúa sinn til leiks og höfðu viðmælendur sunnlenska.is í salnum það á orði að það væru all sérstök skilaboð til kjósenda Suðurkjördæmis á lokaspretti kosningabaráttunnar. Þetta er eini opni framboðsfundurinn sem haldinn er í kjördæminu fyrir kosningarnar.

Það var góð stemning í salnum en fjölmiðlamaðurinn Stefán Einar Stefánsson stýrði fundinum á léttan og skemmtilegan hátt og var farið um víðan völl í málefnunum. Til fundar við hann mættu Guðrún Hafsteinsdóttir Sjálfstæðisflokki, Elvar Eyvindsson frá Lýðræðisflokknum, Karl Gauti Hjaltason frá Miðflokknum og Sigurður Ingi Jóhannsson Framsóknarflokki.

Framboð Flokks fólksins, Pírata, Samfylkingar, Sósíalista, Viðreisnar og Vinstri grænna sendu ekki fulltrúa á fundinn.

Húsfyllir var á Sviðinu og setið í hverju skúmaskoti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinStefnt að opnun Nettó 13. desember
Næsta greinForvarnir gegn refsingu