Fundu dauðan sel í Ölfusá

Nemendur í 9. bekk Vallaskóla á Selfossi fundu dauðan sel í Ölfusá í dag þar sem þau nutu blíðunnar á útivistardegi skólans í Hellisskógi.

Krakkarnir voru í gönguferð í Hellisskógi og komu þá auga á eitthvað í ánni, kannski sel, kannski skrímsli eða bara tré.

Ekki þótti annað fært en fullkanna málið en það voru þó ekki margir tilbúnir til að vaða útí. Halldóra og Gísli létu þó ekki ganga lengi á eftir sér, fóru úr skóm og sokkum, óðu að skrímslinu og drógu að landi.

Þetta reyndist vera selur, steindauður og heldur illa lyktandi. Einn nemandi ættaður að vestan var viss um að þarna lægi kvendýr og var það meira en fullorðið fylgdarlið kunni skil á.

Sunnlenska.is elti sel upp Ölfusá þann 29. apríl sl. en alls er óvíst hvort um sama dýr sé að ræða. Selur er ekki algengur svona ofarlega í ánni þó að sunnlenska.is sé kunnugt um tvö tilvik í sumar þar sem selir gerðu laxveiðimönnum á Selfossi óleik.

Fyrri greinBæjarfulltrúar mótmæla harðlega
Næsta greinKláruðu leikinn á fimm mínútum