Sex útigangskindur fundust á Biskupstungnaafrétti um helgina. Það var ferðahópur sem rakst á kindurnar og fékk aðstoð úr byggð við að smala þeim og koma til byggða.
„Nei, það var ekki verið að leita að þeim. Það var frændfólk mitt í skemmtiferð á fjórhjóli á framafréttinum sem fann þær,“ sagði Magnús Kristinsson, bóndi í Austurhlíð í Biskupstungum, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Þær fundust austan við Grjótá, nálægt Bláfelli. Ég átti þarna þrjár en þetta voru sex kindur. Það var stök ær frá mér, sex vetra gömul, sem ég vissi að mig vantaði og var búið að leita töluvert að í haust,“ sagði Magnús. Lömbin frá henni náðust í eftirsafni, en ærin tapaðist. „Svo var tvævetla með hrútlambi, sem mig vantaði bara en hún hafði ekki sést.“
„Það er alveg makalaust hvað þetta er seigt að bjarga sér,“ sagði Magnús. Hann segir ekki algengt að það komi útigangsfé á Biskupstungnaafrétti, en segir það algengara á afréttunum austan við.