Síðastliðinn laugardag stóð Ungmennafélagð Trausti fyrir vorhreinsun meðfram Þjóðvegi 1 undir Vestur-Eyjafjöllum.
Þó veðrið hafi ekki leikið við íbúa undir Eyjafjöllum þann daginn tóku um 50 manns þátt og sýndu hvað í þeim býr, en yfir daginn safnaðist saman rusl sem fyllti tæplega einn gám.
Þess má geta að hópurinn vann hver á sínu svæði og virti því að sjálfsögðu reglur um samkomubann og tveggja metra reglur.
Þetta er í þriðja sinn sem Umf. Trausti stendur fyrir hreinsun sem þessari en þess má geta að þegar hreinsað var í fyrsta skipti var um þriðjungi meira rusl. Svæðið sem hreinsað var nær frá Varmahlíð í austri og vestur að A-Landeyjamörkum. Einnig voru hreinsaðir hliðarvegir innan Vestur Eyjafjalla.
Ungmennafélagið skorar á önnur félög sem og einstaklinga til að nýta vorið í að hreinsa nærumhverfi sitt og efna til hreinsunar dags enda Dagur umhverfisins á næsta leiti.
Frá þessu er greint á heimasíðu Rangárþings eystra.