Aðalfundur Friðar og frumkrafta – hagsmunafélags atvinnulífs í Skaftárhreppi leggur mikla áherslu á náttúruvernd og verndun hinnar stórbrotnu náttúru Skaftárhrepps gegn virkjanaframkvæmdum og öðrum framkvæmdum og aðgerðum sem hafa óafturkræf áhrif á náttúru svæðisins.
Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á aðalfundinum á Icelandair Hótel Klaustri þann 19. mars síðastliðinn.
Í ályktuninni segir að ef fyrirhugaðar stórvirkjanaframkvæmdir í Skaftárhreppi verði að veruleika, ein eða fleiri, verði unnið óbætanlegt tjón á náttúru Skaftárhrepps sem enn er óröskuð af slíkum framkvæmdum.
„Einnig skaðast mjög ímynd helstu atvinnugreina sveitarfélagsins ferðaþjónustu og landbúnaðar, sem eiga allt sitt undir náttúrunni og gæðum hennar og ímynd.“
Í greinargerð sem fylgir ályktuninni kemur fram að helsta aðdráttarafl erlendra ferðamanna til landsins er íslensk náttúra og ósnortin víðerni hálendisins og um 80% ferðamanna koma til Íslands vegna náttúrunnar. Greinargerðin fer hér á eftir:
„Hvergi í Evrópu er að finna jafn ósnortin samfelld víðerni og á Íslandi. Landið er sannkallað ævintýraland í augum erlendra ferðamanna. Þá ímynd landsins ber að varðveita. Ferðaþjónustan í Skaftárhreppi hefur fram að þessu getað stært sig af því að geta boðið gestum sínum uppá upplifun í óspilltri náttúru af völdum virkanaframkvæmda.
Tvær helstu leiðir úr Skaftárhreppi inn á hálendið; Öldufellsleið/Fjallabaksleið syðri og Fjallabakskeið nyðri liggja við fyrirhuguð miðlunarlón. Það yrði því mikill skaði fyrir ferðaþjónustuna í Skaftárhreppi og almennt á landinu að fá svo mikið rask við aðalleiðir inná hálendi Íslands, fyrir utan önnur landspjöll og eyðingu beitilands fyrir sauðfjárbændum á svæðinu.
Sterkar líkur eru fyrir því að ferðaþjónustan verði í framtíðinni ein af aðal uppistöðum í afkomu sveitarfélagsins og að þær tekjur sem sveitarfélagið verði af við að ekki verði virkjað verði léttvægar hjá þeim skaða sem virkjanirnar muni valda.
Ferðaþjónustan hefur almennt, auk þeirra gríðarlegu gjaldeyristekna sem hún skapar þjóðinni, jákvæð áhrif á og eflir aðrar atvinnugreinar með beinum og óbeinum hætti. Ferðaþjónustan eflir verslun, landbúnað, sjávarútveg, skapandi greinar og síðast en ekki síst eflir hún samfélög á landsbyggðunum og auðgar mannlíf bæði í þéttbýli og dreifbýli. Náttúra Íslands er helsta framtíðarverðmæti ferðaþjónustunnar og hana ber því að vernda og varðveita.“