Fyrirlestur um laxastofna í virkjuðum ám

Í dag kl. 11:50 verður haldinn í Sal 2 í Háskólabíó fyrirlestur um stíflur í ám og tilraunir til að greiða för sjógöngufiska á áhrifasvæðum stíflumannvirkja.

Fyrirlesari er Dr. Margaret J. Filardo, sem hefur í tvo áratugi verið leiðandi í rannsóknum á lífsskilyrðum laxastofna í virkjuðum ám. Hún er forstöðumaður Fish Passage Center í Oregonfylki í Bandaríkjunum, þar sem rannsakaðar eru gönguleiðir seiða og fullorðinna fiska og veitt ráðgjöf um gerð fiskvega í ám sem hafa verið virkjaðar til raforkuframleiðslu.

Tilefni fyrirlestrarins er að nú stendur yfir opið umsagnarferli um drög að þingsályktun iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra um verndun og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði. Umsagnarferlinu lýkur 11. nóvember 2011 og fer málið í kjölfarið til meðferðar Alþingis. Athyglin beinist m.a. að villtu laxa- og sjóbirtingsstofnunum í Þjórsá og áhrifum virkjana í neðri hluta árinnar á þá.

Fyrirlesturinn er haldinn á vegum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, Stofnunar Sæmundar fróða, og NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna.

Allir eru velkomnir.

Fyrri greinFyrsti sigur Hamars í deildinni
Næsta greinRáðstefna um Kötlu jarðvang