Nichole Leigh Mosty, fyrrverandi alþingiskona og forstöðukona Fjölmenningarseturs, var í dag ráðin leikskólastjóri í Vík.
Sveitarstjórn Mýrdalshrepps staðfesti á fundi sínum í dag tímabundna ráðningu hennar og mun Nichole taka við starfinu í byrjun júní.
Nichole hefur langa reynslu af störfum á leikskólum og var m.a. aðstoðarleikskólastjóri í tvö ár og leikskólastjóri leikskólans Aspar í Reykjavík í fimm ár. Hún hefur setið á Alþingi og tekið þátt í ýmsum þróunarverkefnum í leikskólum hérlendis og í Bandaríkjunum. Ennfremur hefur hún frá árinu 2021 gegnt stöðu forstöðumanns Fjölmenningarseturs.
Nichole er með B.Ed. gráðu í leikskólakennarafræðum og M.Ed. gráðu í náms- og kennslufræði með kjörsvið mál og læsi.
Að sögn Einars Freys Elínarsonar, sveitarstjóra Mýrdalshrepps, bíður Nichole það stóra og spennandi verkefni að halda utan um og móta leikskólastarf í fjölmenningarsamfélagi og skipuleggja flutning starfseminnar í nýtt húsnæði sem verið er að byggja.