Fyrsta barn ársins 2017 á Íslandi fæddist á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi kl. 00:03 í nótt. Það var myndarlegur drengur, þrettán merkur og 51,5 sentimetrar.
Drengurinn er Selfyssingur, þriðja barn þeirra Katrínar Guðjónsdóttur og Egidijus Jankausas. Fyrir eiga þau tíu ára stúlku og sjö ára dreng. Erla Björk Sigurðardóttir, ljósmóðir, tók á móti drengnum en settur fæðingardagur var 31. desember.
Fæðingin gekk hratt og vel fyrir sig að sögn Katrínar. „Við náðum að elda og borða góðan mat í gærkvöldi og byrjuðum svo að horfa á áramótakaskaupið. Ætli við höfum ekki náð svona helmingnum af því, þá fór allt af stað. Hann kom með látum en þetta gekk allt vel,“ segir Katrín en þau voru komin á fæðingardeildina um klukkan hálf tólf og hálftíma síðar var drengurinn kominn í heiminn.
Svo skemmtilega vill til að Katrín var fyrsta barnið sem kom í heiminn á Íslandi árið 1980, en hún fæddist á Landspítalanum. „Ég hef ekki fundið fyrir því að þetta sé eitthvað sérstakt, fyrir utan að það fólk man eftir afmælisdeginum mínum. En það er gaman að hann hitti á þennan dag og nú er ánægjan tvöföld í fjölskyldunni.“