Fyrsta tilfelli COVID-19 hefur verið greint á Suðurlandi. Hjörtur Kristjánsson, sóttvarnarlæknir í suðurumdæmi, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is.
Um er að ræða einn einstakling á sextugsaldri og er hann í „heima“-einangrun í sumarbústað í uppsveitum Árnessýslu. Fjórir einstaklingar tengdir manninum eru í sóttkví.
Að sögn Hjartar var fólkið í skíðaferðalagi erlendis, eins og allir aðrir sem greinst hafa með SARS-CoV-2 veiruna hérlendis.
Hjörtur hvetur Sunnlendinga til þess að „halda áfram að hugsa vel hverjir um annan“ en mikilvægasta ráðið fyrir heilbrigða til þess að forðast smit er góð handhreinsun.