Sveitarfélagið Árborg hefur hafið tilraunaverkefni með fyrstu grenndarstöðina fyrir endurvinnanlegan heimilisúrgang innan sveitarfélagsins. Stöðin er staðsett vestast á bílastæðinu við Sunnulækjarskóla.
Að sögn Atla Marel Vokes, sviðsstjóra mannvirkja- og umhverfissviðs Árborgar er grenndarstöðin hugsuð sem yfirfall frá heimilum á bláu tunnunni og má skila þangað öllum endurvinnanlegum heimilisúrgangi og gilda þar sömu reglur og um bláu tunnuna við heimili fólks.
Að auki er hægt að koma með smáhluti úr gleri og postulíni til endurvinnslu í grenndarstöðina í sérmerkt hólf.
„Verkefnið snýst um að auka þjónustu við íbúa sveitarfélagsins, og mun standa í þrjá mánuði. Að því búnu verður reynslan metin út frá athugasemdum frá íbúum, þjónustuaðila og starfsmönnum sveitarfélagsins auk þess sem reynslan af umgengni íbúa mun vega þungt. Ef vel tekst til, þá eru uppi hugmyndir um að bæta við grenndarstöðvum á fleiri staði innan sveitarfélagsins,“ segir Atli og hvetur íbúa og gesti til að ganga vel um stöðina og ekki skilja eftir endurvinnanlegan heimilisúrgang við stöðina ef hún er full.