Ökumenn rafbíla geta nú hlaðið bílinn á nýrri hraðhleðslustöð sem Orka náttúrunnar (ON) hefur sett upp í samstarfi við Olís á Selfossi. Þetta er áttunda stöðin af tíu sem ON mun halda úti á Suður- og Vesturlandi.
Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung á Miklubraut, á Fitjum í Reykjanesbæ, við IKEA í Garðabæ og í Borgarnesi.
Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima, sá um að opna stöðina á Selfossi. Hann hefur átt rafmagnsbíl í tæpt ár. Hraðhleðslustöðvarnar gera honum kleift að komast allra ferða sinna án nokkurra vandkvæða og telur hann þær lykilþátt í að hraða rafbílavæðingu á Íslandi. Með tilliti til umhverfissjónarmiða og fjárhagslegs sparnaðar séu rafbílar það eina rétta fyrir íslenskt framtíðarsamfélag.
Jón Halldórsson forstjóri Olís segir að opnun hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla sé liður í stefnu félagsins að auka aðgengi viðskiptavina að umhverfisvænum og endurnýjanlegum orkugjöfum.
Tíu nýir rafbílar á mánuði
Frá áramótum hafa tíu rafbílar bæst við bílaflota Íslendinga mánaðarlega. Fjölbreytt framboð rafbíla hefur aukist verulega síðustu mánuði. Hjá Norðmönnum er nú 21 rafbílategund á markaði. Þróunin er svipuð hér á landi.
Rekstur rafbíla sparar peninga og minnkar útblástur. Á vef Orkuseturs er að finna reiknivél sem ber orkukostnað rafbíla saman við orkukostnað annarra bifreiða. Reiknivélin segir jafnframt til um hverju munar í útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL ehf. og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur.
Orka náttúrunnar framleiðir og selur rafmagn til heimila og fyrirtækja um allt land og rekur fjórar virkjanir; jarðvarmavirkjanirnar á Hellisheiði og Nesjavöllum og vatnsaflsvirkjanirnar í Andakílsá og Elliðaám. Auk rafmagnsframleiðslu framleiða jarðvarmavirkjanirnar heitt vatn fyrir hitaveituna. Orka náttúrunnar er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.