Sigrún Þuríður Geirsdóttir varð í nótt fyrsta konan til að synda svokallað Eyjasund, þ.e. að synda frá Vestmannaeyjum til Landeyjasands.
Eyjafréttir greina frá þessu.
Sigrún hóf sundið kl. 1:10 í nótt frá Eiðinu á Heimaey en leiðin sem Sigrún synti var rúmir 11 km og tók sundið hana 4 klst og 31 mín. Sundið gekk mjög vel og voru veðurskilyrði hagstæð.
Fyrstu tvo klukkutímana fylgdu höfrungar henni eftir en mávar, fýlar og lundar sýndu einnig sundi hennar mikinn áhuga. Það er skemmtilegt frá því að segja að Sigrún er frænka eins frægasta sjósundskappa Ísland, Eyjólfs Jónssonar, sem synti Eyjasundið fyrstur manna í júlí árið 1959 eða fyrir sléttum 60 árum síðan.
Sigrún er fimmti Íslendingurinn til að synda Eyjasundið. Fylgdarfólk Sigrúnar á sundinu voru Haraldur Geir Hlöðversson frá Vestmannaeyjum, Jóhannes Jónsson og Harpa Hrund Berndsen. Björgunarsveitin Dagrenning frá Hvolsvelli tók á móti Sigrúnu þegar hún landaði.
„Mér mjög leið vel í byrjun sundsins en sjávarföllin, að sögn skipstjórans, voru einkennileg. Því í austurfallinu rak mig til vesturs en ekki austur. Mér varð óglatt og kastaði aðeins upp en annars leið mér ágætlega. Hausinn á mér var góður allan tímann og reyndi ég að hugsa alltaf jákvætt, ég söng í huganum og var alltaf að hugsa um hversu langt ég var komin miðað við önnur sund sem ég hef synt. Vegalengdin var rúmir 11km og það tók mig 4:31 að synda þetta sem var mun skemur en ég hafði áætlað,“ segir Sigrún.
Þeir sem hafa synt Eyjasundið eru:
- Eyjólfur Jónsson árið 1959
- Axel Kvaran árið 1961
- Kristinn Magnússon árið 2003
- Jón Kristinn Þórsson árið 2016
- Sigrún Þuríður Geirsdóttir árið 2019