Það er kannski of snemmt að fullyrða að sauðburður sé hafinn en fyrsta lamb ársins á Suðurlandi er í það minnsta kosti komið í heiminn á bænum Næfurholti á Rangárvöllum.
Geir Ófeigsson, bóndi í Næfurholti, segir á vef Rangárþings ytra að þar á bæ hafi ær aldrei borið svona snemma áður og það er ýmislegt forvitnilegt varðandi tilkomu lambsins. Geir segir nefnilega að ærin hljóti að hafa lembst á meðan hún var enn á fjalli. Enn fremur segir hann að enginn fullorðinn hrútur hafi farið til fjalls og því líti allt út fyrir að einhver lambhrútanna sé faðir lambsins. Sannarlega áhugavert að lamhrútur sé orðinn að gagni í byrjun september og sýnir okkur enn og aftur að náttúran kemur sífellt á óvart.
Gimbrin er hin brattasta og það sama má segja um móðurina, sem heitir því skemmtilega nafni Stúfhyrnusvört.
Geir veit ekki til þess að fleiri lamba sé að vænta fyrr en á venjulegum sauðburðartíma enda kannski ágætt að það bíði um sinn.