
Í dag var tekin fyrsta skóflustungan að viðbyggingu við íþróttamiðstöðina á Borg í Grímsnesi. Það eru Fossvélar ehf sem er framkvæmdaaðili í jarðvinnuhluta framkvæmdarinnar.
„Sveitarstjórn er mjög spennt fyrir þessu verkefni og mikil ánægja er með að framkvæmdin sé hafin en áætluð verklok við bygginguna eru í ágúst 2025,“ segir Iða Marsibil Jónsdóttir, sveitarstjóri, en hún tók fyrstu skóflustunguna ásamt Ásu Valdísi Árnadóttur, oddvita.
Í byggingunni er gert ráð fyrir skrifstofuhúsnæði á efri hæð og góðri aðstöðu til líkamsræktar og aðstöðu fyrir sjúkraþjálfara á neðri hæð. Viðbyggingin tengist við austurgafl íþróttamiðstöðvarinnar og verður á tveimur hæðum með heildarflatarmál um 670m². Líkamsrækt og sjúkraþjálfun ásamt stoðrýmum verða á 1. hæð en á 2. hæð verða skrifstofur og stoðrými.
„Þetta er langþráð verkefni og bindur sveitarfélagið vonir við að þetta muni verða lyftistöng í þjónustu fyrir bæði íbúa og gesti sveitarfélagsins,“ bætir Iða Marsibil við.
Tilboð í bygginguna sjálfa voru opnuð fyrr í þessari viku og bárust alls fimm tilboð í þá framkvæmd, reiknar sveitarfélagið með að ganga að einu þeirra á fyrsta fundi sveitarstjórnar í maímánuði.
