Fyrsta skóflustungan að fyrsta félagsheimilinu

Fyrir skömmu var tekin tekin fyrsta skóflustungan að nýju félagsheimili Stangaveiðifélags Selfoss í Víkinni við Ölfusá.

Í ræðu Guðmundar Maríasar Jenssonar, formanns, kom fram að þetta er merkur áfangi í 70 ára sögu félagsins því þetta er jafnframt fyrsta félagheimili stangaveiðifélagsins. Guðmundur sagði að undirbúningur að byggingu félagsheimilisins væri búinn að vera langur og þakkaði hann sérstaklega bæjaryfirvöldum í Árborg fyrir stuðninginn.

Páll Árnason, heiðursfélagi SVFS, tók fyrstu skóflustunguna og bað allar góðar vættir að vaka yfir byggingunni og félaginu. Páll fékk að launum að eiga skófluna sem notuð var við athöfnina.

Margir félagsmenn mættu og fylgdust með þegar skóflustungan var tekin og þáðu kaffi og kleinur á eftir.

Fyrri greinKatrín Ósk ráðin markaðs- og menningarfulltrúi Ölfuss
Næsta greinBreytingar á samdægursmóttöku á HSU