Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, tók í gær skóflustungu að nýju verknámshúsi við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Húsið verður 1.650 fermetrar að stærð og tengt við Hamar, núverandi verknámshús skólans.
Aðstaðan verður í Hamri endurbætt samhliða byggingu nýs húss en það er JÁVERK á Selfossi sem sér um byggingu hússins og hefst jarðvegsvinna við það strax í dag. Áætluð verklok eru í síðasta lagi um áramótin 2016-2017 í síðasta lagi.
Að verkefninu standa ásamt ríkinu, sveitarfélög í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu.
„Við leggjum áherslu á að húsið þjóni núverandi og vonandi nýjum starfsnámsbrautum við skólann. Verknámið er og verður áfram mikilvægt fyrir atvinnulíf Suðurlands sem og landsins alls. Því er tilkoma þessarar byggingar sérlega ánægjuleg og líkleg til að auka aðsókn í starfsnám,“ segir Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSu, í frétt á heimasíðu skólans.