Fyrsta skóflustungan að viðbyggingu við Sundhöll Selfoss

Í dag var tekin fyrsta skóflustungan að viðbyggingu við Sundhöll Selfoss. Nýja húsið verður á tveimur hæðum og rúmar meðal annars rúmgóða búningsaðstöðu og líkamsræktarstöð.

Gunnar Egilsson, formaður framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar, Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, fulltrúar morgunsundhópsins Húnanna og börn frá Selfossi tóku fyrstu skóflustunguna.

Gunnar sagði í samtali við sunnlenska.is að nýja byggingin verði mikil lyftistöng fyrir sveitarfélagið allt.

„Húsið er 1.350 fermetrar að grunnfleti með mjög góðum, nýjum búningsklefum, góðri aðstöðu fyrir fatlaða og lítilli kennslulaug sem við getum notað sem barnalaug. Efri hæðin er um 800 fermetrar og þar er gert ráð fyrir líkamsræktarstöð. Þetta verður mikil upplyfting fyrir bæði íbúa og gesti sveitarfélagsins því hér kemur aðstaða sem okkur hefur sárlega vantað. Í raun má segja að við séum að tryggja okkur betri lífsgæði með þessari framkvæmd,“ segir Gunnar.

Heimamenn í JÁVERK munu sjá um verkið og JÁVERK mun eiga og leigja út efri hæðina. Áætluð verklok eru 31. maí á næsta ári.

Árlega koma hátt í 200 þúsund gestir í Sundhöll Selfoss og binda forsvarsmenn sveitarfélagsins miklar vonir við það að bætt aðstaða muni fjölga sundlaugargestum til muna.


Tölvumynd af útliti nýja hússins sem er samtengt gamla húsinu. Aðkoman að nýja húsinu er frá Tryggvagötu.
Fyrri greinAndrés Rúnar: Reisum nýtt og betra
Næsta greinÞrestir skálma í Skálholt