Framkvæmdir við fimm íbúða raðhús við Lyngöldu 4 á Hellu eru í þann mund að hefjast og af því tilefni var skóflum stungið í jörð í dag, til að marka upphaf framkvæmdanna með formlegum hætti.
Bjarg íbúðafélag stendur fyrir byggingunni í samstarfi við Rangárþing ytra sem hefur fjárfest í verkefninu. SG hús á Selfossi munu sjá um framkvæmdina og stefnt er á að afhenda íbúðirnar í lok þessa árs.
Framlag Rangárþings ytra felst í 12% stofnframlagi sem greiðist með skuldajöfnun gjalda annars vegar og beinum fjármunum hins vegar en heildarupphæðin nemur tæpum 30 milljónum króna.
Bjarg er sjálfseignarstofnun rekin án hagnaðarmarkmiða og er félaginu ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði, sem eru fullgildir félagsmenn aðildafélaga ASÍ eða BSRB, aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.