Fyrsta skóflustungan að gestastofu á Klaustri

Kirkjubæjarklaustur. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson
Fyrsta skóflustungan að nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs í landi Hæðargarðs við Kirkjubæjarklaustur verður tekin sunnudaginn 7. júní kl. 13:30.
Gestastofunnar hefur verið beðið með talsverðri óþreyju undanfarin ár, en nú er búið að bjóða út vegagerð og bílastæði við húsið og á þeim verkhluta að vera lokið í ágúst. Jarðvinna við bygginguna verður boðin úr á næstunni.
Byggingin mun rísa við svonefndan Sönghól í landi Hæðargarðs, sunnan Skaftár, beint á móti byggðinni á Klaustri og er byggingarlóðin gjöf til Vatnajökulsþjóðgarðs frá Magnúsi Þorfinnssyni.
Magnús mun taka fyrstu skóflustunguna ásamt umhverfis- og auðlindaráðherra og fulltrúum Vatnajökulsþjóðgarðs og Skaftárhrepps.
Skóflustungan er tekin á 12 ára afmæli Vatnajökulsþjóðgarðs og verður dagskrá í framhaldinu í Skaftárstofu, núverandi gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri. Nemendur úr Tónlistarskóla Skaftárhrepps taka þátt í dagskránni og á veggjum verður m.a. sýning frá nemendum Leikskólans Kærabæjar. Í lokin verður svo veislukaffi í umsjón Kvenfélags Kirkjubæjarhrepps.
Fyrri greinLést í sundi á Selfossi
Næsta greinFasteignamat á Suðurlandi hækkar um 2,2%