Síðastliðinn föstudag var tekin fyrsta skóflustungan að nýju hverfi á Selfossi í landi Jórvíkur í Sandvíkurhreppi. Hverfið er austan við og í beinu framhaldi af Björkurstykki.
Fyrrum eigendur landsins þau Rúnar Gestsson og Sigrún Erla Sigurðardóttir sáu um að taka skóflustunguna fyrir hönd framkvæmdaraðila sem er Akurhólar ehf. Akurhólar keyptu landið árið 2017 og hafa unnið að því síðan að skipuleggja svæðið í samráði við bæjaryfirvöld.
„Það er ljóst að þessi viðbót mun styðja við þann mikla áhuga sem er á Selfossi um þessar mundir og verður til þess að styrkja sveitarfélagið Árborg til lengri tíma litið, enda hefur sú myndarlega uppbygging sem átt hefur sér stað í sveitarfélaginu síðustu misseri vakið verðskuldaða athygli og hefur haft jákvæð áhrif á sveitarfélagið í heild,“ segir Snorri Sigurðarson, annar eigenda Akurhóla ehf. í samtali við sunnlenska.is.
350 íbúðir í blandaðri byggð
Hverfið er hannað með tilliti til tenginga við næstu hverfi og kemur það til með að renna saman og mynda skemmtilega heild við svæðið sem Sveitarfélagið Árborg er að skipuleggja í landi Bjarkar.
Hermann Ólafson hjá Landhönnun ehf. sá um hönnun á deiliskipulaginu fyrir hönd landeiganda en Verkfræðistofan HNIT ehf. var með yfirumsjón á lagna og gatnahönnun. Akurhólar ehf. eiga tæpa 44 hektara lands á svæðinu og það sem nú er tekið í notkun eru tæpir 15 hektarar. Á svæðinu er gert ráð fyrir allt að 350 íbúðum í blandaðri byggð, fjölbýli-s, rað-, par- og einbýlishúsa. Þessi fyrsti áfangi rúmar því um 8-900 nýja íbúa.
Borgarverk sér um framkvæmdir á svæðinu
Akurhólar ehf. er framkvæmdaraðili á svæðinu og síðastliðinn föstudag var einnig skrifað undir samning við Borgarverk ehf. um framkvæmd verksins. Verkinu er skipt upp í tvo áfanga og gert er ráð fyrir að fyrsta áfanga gatnagerðar verði lokið í október á þessu ári og seinni áfanga svo í maí 2022. Forsvarsmenn Akurhóla vonast til að byggingaframkvæmdir í hverfinu geti hafist í lok júní í sumar og að hverfið verði full byggt á næstu 3-4 árum.