Fyrsta skóflustungan tekin á miðvikudaginn

Nýja brúin á Ölfusá verður 330 m löng stagbrú með turni á Efri-Laugardælaeyju. Mynd/Vegagerðin

Framkvæmdir við nýja Ölfusárbrú eru að hefjast en fyrsta skóflustungan verður tekin næstkomandi miðvikudag.

Alþingi samþykkti í dag lagabreytingu sem tryggir grundvöll fyrir fjármögnun brúarinnar, vegum sem að henni liggja og tengdra vegaframkvæmda. Kostnaður við brúarsmíðina er um 8,4 milljarðar króna en heildarkostnaður með vegum og fleiru um 17,9 milljarðar króna.

Til stendur að skrifa undir samning við verktaka í Golfskálanum á Selfossi kl. 15 á miðvikudaginn, 20. nóvember, og taka síðan fyrstu skóflustunguna vegna framkvæmdanna. Gert er ráð fyrir að umferð verði hleypt á nýju brúna haustið 2028.

„Það er ánægjulegt að gengið hafi verið frá útfærslu vegna fjármögnunar Ölfusárbrúar og tengivega við hana. Vegagerðin og verktakar fá nú grænt ljós til að hefja framkvæmdir. Nýja brúin er lykillinn að því að auka öryggi og greiða umferð fyrir alla landsmenn um Suðurland. Þá færir hún íbúum Selfoss og Suðurlands aukin lífsgæði með því að umferð þjóðvegarins er færð úr miðbænum. Við þurfum góðar brýr fyrir samfélagið okkar og þessi brú er í senn tímabær og glæsileg,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra.

Fyrri greinJóna Björk sýnir í Listagjánni
Næsta greinUngir sjálfstæðismenn segja verkfallsaðgerðirnar óréttlátar