Heilsustígurinn við Laugaskarð, 2,67 km löng gönguleið með æfingastöðvum, var formlega vígður við upphaf Blómstrandi daga í Hveragerði í gær.
Þetta er fyrsti heilsustígurinn á landinu og er hann hugsaður til að bæta lýðheilsu almennings og aðgengi ferðamanna að spennandi útivistarmöguleikum með uppsetningu þrek- og æfingastöðva.
Stígurinn tengist sundlauginni í Laugaskarði og á honum er fjöldi æfingastöðva en fleiri munu bætast við eftir áramót.
Hver æfingastöð samanstendur af æfingum sem reynir á mismunandi vöðvahópa annaðhvort vöðvaþol eða -styrk. Æfingarnar henta jafnt þjálfuðum sem og óþjálfuðum einstaklingum en upplýsingaskilti um framkvæmd æfinga eru á hverri æfingastöð.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, rakti forsögu heilsustígsins við vígsluna og sló á létta strengi þegar hún sagði að með tilkomu hans yrðu íbúar Hveragerðis í betra formi en íbúar allra annarra sveitarfélaga á Íslandi.
Það er fyrirtækið Heilsustígar ehf. sem sá um hönnun og ráðgjöf vegna stígsins en auk Hveragerðisbæjar koma Íþróttafélagið Hamar, Landbúnaðarháskóli Íslands, Heilsustofnun NLFÍ, Ölfusborgir og Sveitarfélagið Ölfus að verkinu.
Fyrsti stígurinn Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi, Sigríður Sigmundsdóttir og Pétur Frantzson frá skokkhóp Hamars sem afhjúpuðu fyrsta skiltið og Hermann G. Gunnlaugsson verkefnisstjóri hjá Heilsustígum ehf. sunnlenska.is/Guðmundur Karl