Fyrsti hluti fjölnota húss tilbúinn í ágúst 2021

Fyrsti áfangi fjölnota íþróttahúss á Selfossi rís fyrir sunnan núverandi gervigrasvöll.

Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi fjölnota íþróttahúss á íþróttavellinum á Selfossi verði tilbúinn til notkunar þann 1. ágúst árið 2021. Jarðvinnuframkvæmdir hefjast í október á þessu ári.

Þetta kemur fram í framkvæmda- og greiðsluáætlun sem fulltrúar verkfræðistofunnar Verkís lögðu fram á fundi eigna- og veitunefndar Árborgar á dögunum.

Í fyrsta áfanga er hálfur knattspyrnuvöllur og aðstaða fyrir frjálsar íþróttir og mun húsið rísa við suðurenda núverandi gervigrasvallar.

Hlé á framkvæmdum vegna unglingalandsmóts
Gert er ráð fyrir að verkið verði boðið út í sumar og framkvæmdir muni standa frá október næstkomandi og fram á næsta sumar, en þá verður gert tæplega mánaðar hlé á verkinu vegna unglingalandsmótsins á Selfossi um verslunarmannahelgina. Á þeim tímapunkti á allri vinnu við steyptar undirstöður og veggi ásamt fyllingum í jörðu að vera lokið. Hlé verður á framkvæmdunum frá 15. júlí til 10. ágúst.

Verksamningur um íþróttabúnað og innréttingar verður boðinn út fyrir árslok 2020 og vinna við frágang innanhúss ætti að geta hafist á fyrstu mánuðum ársins 2021. Gert er ráð fyrir að öllum framkvæmdum ljúki þann 1. júlí 2021 og að mannvirkið sé afhent til notkunar þann 1. ágúst 2021.

Kostnaður dreifist á fjögur ár
Í fundargerð eigna- og veitunefndar kemur fram að með því að gefa verktökum rúman byggingartíma og stýra greiðsluflæði framkvæmdarinnar þannig að jafnar greiðslur falli til allan framkvæmdatímann, muni kostnaður vegna byggingarinnar dreifast á fjögur ár, sem gerir sveitarfélaginu auðveldar fyrir að fjármagna verkefnið. Kostnaður við þennan fyrsta áfanga er 970 milljónir króna fyrir utan virðisaukaskatt.

Telur sveitarfélagið ekki hafa fjárhagslega burði í verkefnið
Fulltrúar D-lista í bæjarráði og eigna- og veitunefnd greiddu atkvæði á móti áætluninni. „Ljóst er að fjölnota íþróttahús mun rísa á Selfossi og hafa nefndarmenn D-lista ekkert á móti slíkri framkvæmd, en telja að sveitarfélagið hafi ekki fjárhagslega burði til að ráðast í slíkt verkefni á þessum tímum,“ segir í bókun fulltrúa D-listans.

Bæjarráð samþykkti tillögu meirihluta eigna- og veitunefndar og fól sviðstjóra mannvirkja- og umhverfissviðs að undirrita samninga um útboðshönnun verkefnisins við Verkís og AlArk.

Húsið séð frá norðaustri. Fremst á myndinni er núverandi gervigrasvöllur og Fjölbrautaskóli Suðurlands er hægra megin.
Í fyrsta áfanga verður aðstaða fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir.

Fyrri greinHeitavatnslaust norðan Ölfusár
Næsta greinKrakkar keppa í kökuskreytingum