Eiríkur Vilhelm Sigurðarson hefur hafið störf landvarðar í Dyrhólaey í Mýrdal. Þetta er í fyrsta sinn sem landvörður er í eynni.
Eiríkur er ráðinn í starfið af Mýrdalshreppi í samvinnu við Umhverfisstofnun. Dyrhólaey er vinsæll útivistarstaður og þangað koma margir ferðamenn, einkum erlendir, á ári hverju, enda einstök náttúruperla.
Svæðið er nú lokað fyrir ferðafólki en opnar aftur þann 8. júní. Undanfarin ár hefur varpsvæði fugla verið lokað tímabundið á vorin en mikil lundabyggð er í eynni.
Eiríkur er fæddur og uppalinn í Vík í Mýrdal, nemi í ferðamálafræði í háskólanum á Hólum í Hjaltadal og hefur öðlast landvarðarréttindi. Hann hóf störf þann 1. maí sl. og segir verkefnið felast í að vera á staðnum, fylgjast með umgangi fólks og annast framgang friðlýsingar þar.