Það var mikill hugur í veiðimönnum sem sunnlenska.is hitti á bökkum Ölfusár við Selfoss í morgun, þegar veiði hófst í ánni.
Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs Árborgar, tók fyrsta kastið klukkan 7:00 í morgun en fór heim með öngulinn í rassinum eftir tæplega þriggja tíma vakt, eins og síðustu ár.
Ekki þurfti þó að bíða lengi eftir fyrsta laxi sumarsins því klukkan 8:05 veiddi Steindór Pálsson, fyrrverandi formaður Stangaveiðifélags Selfoss og heiðursfélagi nr. 5, ellefu punda hrygnu á miðsvæðinu. Hrygnan sú tók Grýlu, sem er ein vinsælasta túpan í ánni. Skömmu síðar hafði Sigurður Þór Sigurðsson landað tveimur góðum sjóbirtingum.
Guðmundur Marías Jensson, formaður SVFS, sagði í samtali við sunnlenska.is að áin liti vel út á þessum fallega degi og að veiðimenn væru bjartsýnir á sumarið. Reyndar væru þeir bjartsýnir í hverju kasti og það er það sem heldur mönnum við efnið í veiðinni.

