Fyrsti Sunnlendingur ársins kom með hvelli

Fyrsti Sunnlendingur ársins 2021. Ljósmynd/Eydís Hrönn Tómasdóttir

Fyrsta barn ársins á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi kom í heiminn í nótt, þann 2. janúar kl. 03:44.

Það er myndarleg stúlka úr Ásahreppi sem er fyrsti Sunnlendingur ársins en foreldrar hennar eru Eydís Hrönn Tómasdóttir og Víðir Reyr Þórsson í Kastalabrekku. Litla stúlkan er sú tíunda í systkinahópnum en fyrir eiga Eydís og Víðir sex börn auk þess sem Víðir á þrjú börn úr fyrra sambandi.

Stúlkan var 51 sm og rúmar 15 merkur við fæðingu. Ljósmóðir var Veronika Carstensdóttir Snædal og er gaman að segja frá því að þetta er þriðja árið í röð sem hún tekur á móti fyrsta Sunnlendingnum.

Settur dagur hjá Eydísi var 30. desember en í samtali við sunnlenska.is segir hún að hún hafi allt eins verið að horfa á það að fæða fyrsta Sunnlending ársins.

„Það var svosem búið að gera grín að því að ég yrði hérna með Magnús Hlyn með myndavélina á kantinum. Settur dagur var 30. desember en ég kann ekki að stoppa fæðingar þannig að ég var viðbúin öllu. Svo gerðist þetta með látum í nótt, ég á svosem sögu um það og hef fætt áður heima,“ segir Eydís en litla stúlkan kom svo sannarlega með hvelli.

„Við vorum búin að koma hingað klukkutíma fyrr í skoðun og ljósmóðirin var að spá í að senda okkur aftur heim þegar allt fór af stað. Þetta gekk allt vel en hún kom með hvelli í sigurkufli á ganginum fyrir framan fæðingarstofuna,“ sagði Eydís að ennfremur.

Þeim mæðgum heilsast vel. Sú stutta hefur ekki verið nefnd, en er strax komin með nafnbót; fyrsti Sunnlendingur ársins 2021.

Fyrri grein104 milljón króna vinningur enn ósóttur
Næsta greinHarður árekstur á svörtum ís