Björgunarskipið Þór sinnti í dag sjúkraflutningum, bæði frá og til Vestmannaeyja um Landeyjahöfn. Þetta var í fyrsta sinn í ár sem Þór sinnir sjúkraflutningum til og frá Vestmannaeyjum, en þó nokkrir flutningar áttu sér stað í fyrra.
Klukkan 9 í morgun var áhöfn Þórs kölluð út til að flytja sjúkling frá Vestmannaeyjum. Sjúkrabíll flutti sjúklinginn að Þór og var lagt af stað frá Vestmannaeyjum klukkan 9:40 og lent í Landeyjahöfn rétt rúmlega tíu þar sem sjúkrabíll beið sjúklingsins. Þór hélt svo aftur til Eyja en þörf var á öðrum flutningi skömmu síðar.
Rétt upp úr hádegi kom önnur beiðni, í þetta sinn að sækja sjúkling í Landeyjahöfn og flytja til Eyja. Þór fór úr höfn í Vestmannaeyjum klukkan 12:30 og sjúklingurinn var kominn til Vestmannaeyja fyrir klukkan 14.
Þór var þá fylltur af eldsneyti og orðinn klár í útkall við bryggju í Eyjum.