Í sumar hefur verið unnið að stígaviðgerðum í Goðalandi, sér í lagi á stígnum sem liggur upp á Fimmvörðuháls. Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði við verkið í síðustu viku.
Erfitt er að koma efni til stígaviðgerða upp með stígnum enda um einstigi að fara og engin ökutæki sem komast upp brekkurnar í Goðalandi. Því var gripið til þess ráðs að leita eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar við að flytja efni upp á Foldir sem eru ofan Kattahryggja sem margir kannast við.
Í síðustu viku mættu Landhelgisgæslumenn á þyrlunni TF-LÍF og fluttu kurl, greinar og timbur upp á fjall. Gátu þeir nýtt tækifærið til að æfa krókflug á þyrlu eða sling eins og það er kallað meðal Gæslumanna.
Stígarnir á svæðinu voru orðnir mjög illa farnir og farnir að valda alvarlegum jarðvegs og gróðurskemmdum á svæðinu. Verkefnið er unnið á vegum Skógræktar ríkisins og Vina Þórsmerkur sem eru hagsmunasamtök ferðaþjónustuaðila á Þórsmerkursvæðinu, Rangárþings Eystra, Skógræktar ríkisins og almennings. Hefur það notið stuðnings frá Ferðamálastofu, Pokasjóði, Vinnumálastofnun, sjálfboðaliðahópum Umhverfsistofnunar og Kynnisferðum. Ferðafélagið Útivist hefur lánað húsnæði og eldunaraðstöðu undir vinnuhópana.
Myndir: Sveinn Rúnar Traustason og Hreinn Óskarsson