Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, þurfti að nauðlenda í Þykkvabæ á fimmta tímanum í dag eftir að reykur kom upp í henni. Þyrlan var að flytja sjúkling frá Vestmannaeyjum er atvikið átti sér stað.
Mbl.is greinir frá þessu.
Samkvæmt fyrstu boðum sem send voru út var óttast að vélin þyrfti ef til vill að nauðlenda á sjónum.
Nauðlendingin tókst vel og engan sakaði en þyrlan lenti við bæinn Skarð. Sjúkrabíll sótti sjúklinginn sem þyrlan var að flytja.
RÚV greinir frá því að samkvæmt vinnureglum Landhelgisgæslunnar hafi strax verið sent út neyðarkall. Björgunarskip frá Vestmannaeyjum var kallað út, svo og Flugbjörgunarsveitin á Hellu og sjúkrabílar. Sex voru um borð í þyrlunni, fimm í áhöfn og sjúklingurinn. Björgunarsveitir voru afturkallaðar en ákveðið var að flytja sjúklinginn með sjúkrabíl til Reykjavíkur. Talið er að bilun hafi komið upp í þyrlunni en ekki er vitað hvers eðlis hún er.