Lögreglan á Selfossi hefur óskað eftir fjögurra vikna gæsluvarðhaldi yfir þremur mönnum sem frömdu vopnað rán í fjölbýlishúsi á Selfossi í gær.
Mennirnir réðust inn í íbúð í bænum í gærkvöldi og höfðu þar í hótunum við íbúa og gesti. Þeir ógnuðu fólkinu með hnífum og höfðu á brott með sér tölvur og önnur verðmæti.
Árásarmennirnir og hafa í dag verið yfirheyrslum hjá lögreglu á Selfossi. Taki dómari ósk um gæsluvarðhald til greina yrðu mennirnir í haldi til 10. janúar.
„Eins og málsatvik og öll gögn líta út núna þá var þessi árás mjög ófyrirleitin. Því er rík ástæða til þess að óska gæsluvarðhalds bæði á grundvelli rannsóknar- og almannahagsmuna,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi í samtali við mbl.is.