Ef ráðist verður í uppbyggingu stórskipahafnar í Þorlákshöfn samkvæmt eldri áætlunum um það myndi slík framkvæmd kosta um átta milljarða króna.
Að sögn Sigríðar Láru Ásbergsdóttur, forseta bæjarstjórnar Ölfuss, krefst slík uppbygging myndarlegrar aðkomu ríkisvaldsins.
,,Ríkið þarf að koma að framkvæmdum ef ráðist verður í stórskipahöfn. Við teljum það lykilatriði að efla atvinnulífið á svæðinu í gegnum starfsemi við höfnina en þar sjáum við okkar helsta tækifæri til atvinnuuppbyggingar,“ sagði Sigríður Lára í samtali við Sunnlenska fréttablaðið.
Að sögn Indriða Kristinssonar, hafnarstjóra í Þorlákshafnarhöfn, yrði væntanlega farið í slíka framkvæmd í tengslum við stóriðjuáform, annars væri tæpast unnt að réttlæta framkvæmdina. Nokkrar rannsóknir og skýrslur hafa verið gerðar um slíka höfn. Síðast var slík skýrsla gerð 2004 og er þar gert ráð fyrir að færa hafnargarða fram og gera þá um leið miklu öflugri. Stórskipahöfn miðast við að skip allt að 200 metrar að lengd geti lagst að.
Þess má geta að bæði í Grindavík og Vestmannaeyjum hafa komið fram hugmyndir um stórskipahöfn og því greinilegt að nokkur samkeppni gæti orðið um slíka framkvæmd á milli sveitarfélaga.