Gæði og gleði á bjórhátíð Ölverks

Elvar Þrastarson, yfirbruggari og einn eigenda Ölverks, í gróðurhúsinu við Þelamörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bjórhátíð Ölverks í Hveragerði verður haldin í fyrsta skipti næstkomandi laugardag, þann 5. október, í gróðurhúsi við Þelamörk í Hveragerði.

„Við erum að halda þessa hátíð í tilefni af tveggja ára afmæli bjórsins okkar. Við opnuðum veitingastaðinn í maí árið 2017 en fengum bruggtækin í ágúst og fyrsti bjórinn okkar var kominn á krana 5. október 2017,“ segir Elvar Þrastarson, yfirbruggari og einn eigenda Ölverks, í samtali við sunnlenska.is.

Hátíðin er haldin í óvenjulegu umhverfi, stóru gróðurhúsi við Þelamörk 29, en þessum hluta Þelamarkarinnar verður lokað á meðan hátíðin fer fram. „Það var haldinn markaður í þessu gróðurhúsi í sumar og þá sáum við möguleikann á því að halda bjórhátíð. Það er ekki nema rúmur mánuður síðan við ákváðum að halda hátíðina en undirbúningurinn hefur gengið vel og framleiðendurnir eru spenntir að mæta hingað með vörurnar sínar,“ segir Elvar ennfremur.

Miðasala á hátíðina er hafin á tix.is en gestir fá armband inn á svæðið, bjórglas og happdrættismiða og geta svo smakkað á vörum hinna ýmsu framleiðanda og átt samtal við bruggarana.

Nóg af bjór er lykilatriði
„Það verður nóg af bjór í boði, það er kannski lykilatriði á svona bjórhátíð. Það eru átján brugghús, héðan og þaðan af landinu sem hafa staðfest komu sína og mörg þeirra eru brugghús sem fólk hefur aldrei tækifæri á að smakka á börum. Við erum líka búin að gera bjórís í samvinnu við Kjörís og Agla gosgerð mun bjóða upp á gerjaðan gosdrykk. Síðan verður viðeigandi meðlæti, pylsur, samlokur og pretzel, plötusnúður og tónlistaratriði frá Unni Birnu og Sigurgeiri Skafta,“ bætir Elvar við.

Hann segir að hátíð sem þessi snúist ekki um magnið sem gestir geta innbyrt, heldur gæðin. „Líklega mætir hver framleiðandi með tvo bjóra þannig að þetta eru 36 bjórar sem þú getur smakkað og þó að þú fáir bara smáskot af hverjum þá ertu kominn í ágætis magn,“ segir Elvar glettinn en meðal þeirra brugghúsa sem hafa staðfest komu sína eru RVK Brewing í Reykjavík, Jón Ríki á Höfn, The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum, Ölvisholt í Flóahreppi og Smiðjan brugghús í Vík – og eru þá aðeins örfáir nefndir.

Eftir einn ei aki neinn
Bíllinn verður að sjálfsögðu skilinn eftir heima en aðstandendur hátíðarinnar benda íbúum höfuðborgarsvæðisins sérstaklega á það að leið 51 með Strætó leggur af stað frá Mjóddinni til Hveragerðis kl. 15:15 og fer aftur til baka í Mjóddina kl. 22:38.

„Hátíðin byrjar klukkan fjögur og stendur til sjö. Eftir klukkan átta munum við síðan opna húsið og Ölverk verður þá með bar og veitingar til sölu og DJ og gott partí,“ segir Elvar að lokum.

Fyrri greinLionsklúbbur Selfoss gaf stóla og tæki á HSU
Næsta greinSelfoss í toppsætið eftir góðan sigur