Nokkur slys voru færð til bókar í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku. Síðastliðinn laugardag slasaðist kona á göngu nálægt Landmannalaugum og var kallað á þyrlu til að flytja hana á sjúkrahús.
Björgunarsveitarmenn í hálendisgæslu kölluðu þyrluna til en annars hefði þurft um sex tíma vinnu við burð á sjúkrabörum um brattar skriður til að koma konunni á sjúkrahús.
Sama dag féll maður af reiðhjóli sínu á Krakatindsleið. Hann slasaðist á baki og fluttu björgunarsveitir hann til móts við sjúkrabíl sem flutti manninn á sjúkrahús.
Síðastliðinn miðvikudag slasaðist karlmaður á öxl í brattri skriðu í Gagnheiði, norðvestur af Ármannsfelli. Þar var þyrlan einnig kölluð til þar sem aðstæður voru erfiðar og um brattar skriður að fara.
Þennan sama miðvikudag aðstoðuðu björgunarsveitir dreng sem slasaðist á fæti eftir að hafa verið að stökkva á milli steina í gilinu neðan við Hundafoss við Skaftafell. Meiðsli hans voru minniháttar og var gert að þeim á heilsugæslunni á Kirkjubæjarklaustri.