Gaf tuttugu miða í Sjóðinn góða

Kjartan Björnsson, rakari á Selfossi, færði í vikunni Sjóðnum góða tuttugu miða á jólatónleikana Hátíð í bæ sem haldnir verða í Iðu á Selfossi í byrjun desember.

Sr. Axel Árnason, settur prestur í Selfosskirkju, tók við miðunum fyrir hönd sjóðsins en Sjóðurinn góði aðstoðar þá sem höllum fæti standa í aðdraganda jóla.

Jólatónleikarnir Hátíð í bæ verða haldnir í áttunda sinn í íþróttahúsinu Iðu miðvikudaginn 3. desember. Að venju verður mikið um dýrðir en Ragnar Bjarnason verður heiðursflytjandi á tónleikunum í ár. Einnig koma fram Þóra Gylfadóttir, Guðmundur Eiríksson, Helga Möller og Guðrún Gunnarsdóttir svo einhverjir séu nefndir til leiks.

Miðasala á tónleikana fer fram á rakarastofunni hjá Kjartani í Miðgarði og á miði.is.

Fyrri greinÖldungaráð sett á fót í Hveragerði
Næsta greinGuðrún Inga kosin varaformaður