Gaf tvö kíló af birkifræi til landgræðslu

Garðyrkjuþjónustan Grænna land ehf. á Flúðum gaf í vikunni Landgræðslufélagi Hrunamanna tvö kíló af birkifræi sem safnast hafa saman á vinnuborði fyrirtækisins síðasta árið.

Grænna land er alhliða garðyrkjuþjónusta á sumrin í slætti og lóðaumhirðu en vinnur með birkigreinar og hálmkransa á veturna. Birkifræin hrynja af greinunum sem eru nýttar í páska og jólaskraut og hefur eigandinn, Erla Björg Arnardóttir, safnað þeim saman yfir árið. Alls var um að ræða tvö kíló en fræin hafa verið sigtuð, hreinsuð og þurrkuð. Þau koma úr trjálundum skógræktarfélagsins í Hrunamannahreppi og henta því vel fyrir þetta svæði. Virði fræjanna er allt að 100.000 krónum.

„Vegna þess hve mikið magn er um að ræða þá vildi ég að fræin nýttust í eitthvert stórt verkefni og hafði því samband við landgræðslufélagið,“ sagði Erla Björg í samtali við sunnlenska.is. „Fræin verða notuð til sáningar í landgræðslureit uppi á Hrunamannaafrétti en Samúel Eyjólfsson í Bryðjuholti ætlar að dreifa fræjunum á næstu dögum. Hann sáir þeim í börð og á staði sem væntanlega hafa meira skjól en aðrir.“

Esther Guðjónsdóttir, formaður landgræðslufélagsins, tók á móti fræjunum og sagði þau góða gjöf sem myndi stækka og dafna í reit félagsins á afréttinum. Birkiplöntum var plantað fyrir þó nokkuð mörgum árum í reitnum og eru þau orðin að vel mannhæðar háum trjám í dag. Fáir höfðu trú á því að trén myndu lifa uppi á hálendinu en þau hafa barist fyrir lífinu þar.

Fyrri greinBakar bollur fyrir alla í skólanum
Næsta greinVíkurskóli og Rauði krossinn vinna saman