Gáfu gjafir að verðmæti 7,5 milljóna króna

Í síðustu viku afhentu Styrktarsamtök Heilsugæslustöðvarinnar á Kirkjubæjarklaustri Heilsugæslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri gjafir að verðmæti tæplega 7,5 milljóna króna.

Það var Sólrún Ólafsdóttir, gjaldkeri samtakanna, sem afhenti gjafabréfin fyrir tækjunum formlega þeim Magnúsi Skúlasyni, forstjóra HSu, Sigurði Árnasyni, lækni heilsugæslustöðvarinnar og Auðbjörgu B. Bjarnadóttur, hjúkrunarfræðingi.

Gjafirnar til heilsugsælunnar eru tæknibúnaður til notkunar í fjarheilbrigðisþjónustu, en tækið er fyrsta sinnar tegundar hér á landi og var keypt í Boston. En að auki voru gefin hjartalínurt, GPS staðsetningartæki, tveir iPad og fartölva.

Meginmarkmið með fjarheilbrigðisþjónustu er að auka aðgengi sjúklinga sem og heilbrigðisstarfsfólks að sérfræðiþjónustu og annarri heilbrigðisþjónustu, sem ekki er aðgengileg heima í héraði. Þetta mun m.a draga úr óþægindum vegna ferðalaga sjúklinga, en oft er um langan veg að fara. Slík þjónusta hefur verið notuð árum saman erlendis með góðum árangri. Um tímamótaverkefni er að ræða sem mögulegt er að aðrir þéttbýlisstaðir landsins munu líta til í framtíðinni.

Margir lögðu hönd á plóginn við að gera þetta mögulegt og er þeim sérstaklega þakkað fyrir. Icelandair Cargo gaf flutninginn til Íslands, og Flytjandi/Auðbert og Vigfús Páll gáfu flutning á tækinu til Kirkjubæjarklausturs. Hörður Davíðsson frá Efri Vík hafði veg og vanda að ljósleiðara væri lagður að stöðinni auk þess sem hann vann að lagningu hans með góðra vina hjálp.

Frá stofnun Styrktarsamtakana, þann 29. október 2012 hafa þau notið mikillar velvildar og vill stjórn samtakanna koma á framfæri þakklæti sínu til íbúa, stofnanna, félaga og fyrirtækja fyrir sýnda velvild og þakkar af heilum hug framlög og stuðning til samtakanna.

Jafnframt vill starfsfólk Heilsugæslunnar koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg og gerðu það mögulegt að stöðin gæti eignast þessi mikilvægu tæki. Sá hugur sem fylgir máli er starfsfólki ómetanlegur og mun styrkja þá í daglegum störfum.

Fyrri greinReykjavík Travel bauð 6,6 milljónir í veiðiréttinn
Næsta greinHeiða Björg kvödd og Árný Jóna boðin velkomin