Þær Gunnhildur Þórmundsdóttir, Ásgerður Sigurbjörnsdóttir og Arnfríður Gunnarsdóttir heimsóttu Heilbrigðisstofnun Suðurlands á kvenréttindadaginn, þann 19. júní, og færðu stofnuninni góða gjöf.
Þær dvelja allar á Ási í Hveragerði og hafa stytt sér stundir í vetur við að prjóna litlar dúkkur og vildu gefa þær slysa- og bráðamóttökunni á Selfossi. Hugsunin á bakvið það er að gleðja lítil börn sem af einhverjum orsökum verða að heimsækja slysa- og bráðamóttökuna.
Dúkkurnar eru í mörgum fallegum litum, 30 talsins og engin eins. Falleg og góð hugsun þarna að baki og eiga dúkkurnar efalítið eftir að stöðva einhver tár og hugga lítil hjörtu sem neyðast til að koma í heimsókn á sjúkrahúsið.