Hafnarnes-Ver í Þorlákshöfn gaf á dögunum öllum börnum í 8.-10. bekk Grunnskólans í Þorlákshöfn bókina Verum ástfangin af lífinu eftir Þorgrím Þráinsson að gjöf.
Forsaga málsins er sú að Sigrún Berglind Ragnarsdóttir, kennari á unglingastigi, fletti bókinni þegar hún kom á skólabókasafnið. Hún hugsaði strax að þessa bók þyrftu allir unglingar að eignast. Sigrún tók sig til og hafði samband við Hannes Sigurðsson, útgerðarmann hjá Hafnarnesi-Veri, og ræddi hugmyndina.
Skemmst er frá því að segja að fjölskyldan í Hafnarnesi-Veri tók vel í hugmyndina og í síðustu viku komu Katrín og Ólafur Hannesarbörn í heimsókn í skólann og afhentu bókina að gjöf til allra nemenda á unglingastigi. Skólinn hafði einnig samband við Þorgrím, sem var ekki lengi að bregðast við og kom í skólann og ritaði persónulega kveðju inni í hverja einustu bók.
Bókin Verum ástfangin af lífinu er stútfull af hvatningu og ráðum um hvernig maður getur verið sinnar eigin gæfu smiður í lífinu. Fjallað er um samskipti við vini og fjölskyldu, mikilvægi hreyfingar, markmiðssetningu, hvernig á að rækta hæfileika sína, baráttuna við kvíða og hvernig þú getur orðið betri manneskja.
Bókin er framhald af fyrirlestrum sem Þorgrímur hefur farið með í skóla um allt land á undanförnum árum. Þorgrímur hefur komið í skólann í Þorlákshöfn á hverju skólaári og heimsóknir hans hafa jafnan vakið athygli og góðar umræður meðal nemenda.