Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands gagnrýnir harðlega að Orkustofnun ákveði einhliða að endurmeta virkjanakosti sem þegar hafa verið skilgreindir og metnir í verndarflokk í rammaáætlun.
Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundinum sem haldinn var í Drangshlíð undir Eyjafjöllum á dögunum.
Aðalfundurinn ályktaði eftirfarandi um virkjanamál og umhverfisvernd á hálendi Íslands og um skipulags- og umhverfismál í ferðaþjónustu:
Samtökin skora á stjórnvöld að veita fjármagni til að hefja vinnu við friðlýsingar svæða sem metin hafa verið í verndarflokk í rammaáætlun.
Samtökin styðja heilshugar baráttu Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands og annara frjálsra félagasamtaka fyrir verndun á hálendi Íslands.
Samtökin fagna vaxandi stuðningi sem nýleg skoðanakönnun Gallup sýnir við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.
Þá lýsti fundurinn áhyggjum sínum af skorti á tilliti til sjónarmiða almennings, almannasamtaka og sérfræðinga við skipulagsgerð, ekki síst við skipulag ferðamannastaða. Aðalfundurinn hvatti til þess að ferðaþjónusta á Suðurlandi verði þróuð og vottuð í samræmi við grunnlögmál sjálfbærrar þróunar, að fram fari faglegt mat á þolmörkum allra helstu ferðamannastaða og að tekin verði upp stýring umferðar og aðgengis í samræmi við niðurstöður þess mats.