Sveitarstjórn Rangárþings eystra gagnrýnir harðlega þá stefnu VÍS að loka skrifstofum sínum á landsbyggðinni með það að leiðarljósi að auka rafræna stjórnsýslu fyrirtækisins.
Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var á síðasta fundi sveitarstjórnar.
„Slík breyting ætti einmitt að fela í sér það tækifæri að reka þjónustuskrifstofur hvar sem er á landinu. VÍS hefur rekið þjónustuskrifstofu á Hvolsvelli frá því að fyrirtækið var stofnað en nú hefur skrifstofunni verið lokað. Með því flytjast mikilvæg störf úr héraði sem getur einnig valdið keðjuverkandi áhrifum á önnur störf innan sveitarfélagsins, auk þeirrar þjónustuskerðingar sem íbúar verða fyrir. Með tilliti til lokunarinnar og stefnu fyrirtækisins sér sveitarfélagið Rangárþing eystra sig knúið til að leita tilboða í sínar tryggingar hjá öðrum þjónustuaðilum,“ segir ennfremur í bókuninni.