„Það hefur legið fyrir lengi að þessi samningur væri að renna út og auðvitað átti að vera búið að klára gerð útboðsgagna fyrir löngu.“
Þetta segir Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Árborg, sem gagnrýnir framlengingu samnings um sorphirðu sem ákveðinn var á bæjarráðsfundi sveitarfélagsins.
Þar var samþykkt af meirihluta D-listans að framlengja samningi við Íslenska gámafélagið um sorphirðu í sveitarfélaginu en samningurinn rann út um áramótin. Gildir framlengingin út þetta ár. Eggert Valur gagnrýndi einnig tímalengd framlengingarinnar og sagði átta mánuði feykinógan tíma til að klára útboðsgögn og samninga í framhaldinu. Greiddi hann atkvæði gegn samningnum.
Í bókun bæjarráðsfulltrúa D-listans segir að í upphaflegum samningi við Íslenska gámafélagið hafi verið gert ráð fyrir endurnýjun til tólf mánaða í senn. Félagið hafi ekki fallist á hugmyndir um að framlengja til styttri tíma. Þá sé vinna við stefnumótun í sorpmálum á byrjunarstigi og lögbundnir ferlar geri það að verkum, ásamt samningi við Sorpu, að sveitarfélagið kynni að lenda í tímaþröng við frágang málsins ef ekki væri þessi háttur hafður á.