Vinjar ehf., félag í eigu nokkura fjárfesta, hefur gengið frá kaupum á Galtalækjarskógi og hluta af Merkihvolslandi, sem liggur austur af skóginum. Alls er um að ræða kaup á rúmlega 80 hekturum í vel grónu og fallegu landi við Ytri Rangá.
Galtalækjarskógur var á árum áður eitt vinsælasta útihátíðarsvæði landsins í eigu og rekstri Bidindissamtakanna IOGT á Íslandi og eiga fjölmargir landsmenn þaðan góðar minningar sem tengjast skóginum.
Í tilkynningu frá nýju eigendunum segir að á þessari stundu liggi ekki fyrir endanlegar hugmyndir um næstu framtíð svæðisins. Þó er stefnt að því að á næstu misserum verði unnar hugmyndir og nýtt deiliskipulag ásamt því að fjarlægja fjölda illa farinna skúra og lítilla mannvirkja sem tengdust tjaldsvæðinu og starfseminni sem þar var.