Galtalækjarskógur til sölu

Galtalækjarskógur. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Galtalækjarskógur hefur verið auglýstur til sölu á 200 milljónir króna. Landið komst í eigu þrotabús Steingríms Wernerssonar við nauðungarsölu síðastliðið haust.

Að sögn Helga Birgissonar hrl., skiptastjóra þrotabúsins, seldu bindindissamtökin I.O.G.T. félagi í eigu bræðranna Karls Emils Wernerssonar og Steingríms Wernerssonar landið árið 2007.

Galtalækjarskógur er samtals 84,1 hektara náttúruperla sem liggur m.a að Ytri Rangá við rætur Heklu. Gott útsýni er frá svæðinu m.a. til Heklu. Landið er allt vel gróið. Galtalækjaskógur var landsþekkt tjald- og útivistasvæði á sínum tíma og svæðið býður upp á margvíslega möguleika.  Í skóginum eru margar fallegar gönguleiðir.

Töluvert er af byggingum eru á landinu og eru þær í misjöfnu ástandi. Þær helstu eru landvarðarhúsið Langahlíð, veitingasalan Merkihvoll, útiskemman Hekla og sumarhúsið Múli.

Að sögn Helga er líklegt að fjárfestar tengdir ferðaþjónustu hafi áhuga á landinu, en landið gæti einnig hentað frístundabændum.  Lögmenn Suðurlandi er með landið til sölu.

Fyrri greinSaga Tryggvaskála og byggðarinnar samofin alla tíð
Næsta greinBráðaþjónusta íbúa landsbyggðarinnar