Gámaþjónustan hefur kært Sveitarfélagið Árborg til Kærunefndar útboðsmála vegna sorpútboðs í sveitarfélaginu fyrir áramót.
Þetta kemur fram á bloggsíðu Bjarna Harðarsonar, varabæjarfulltrúa V-listans í Árborg, en samkvæmt Bjarna var greint frá þessu á bæjarstjórarfundi í gær.
Það kemur þó ekki fram í fundargerð á heimasíðu bæjarins, utan hvað Eyþór Arnalds oddviti D-lista lagði fram fyrirspurn um það hvort bæjarfulltrúi S-lista, Eggert Valur Guðmundsson, hafi fengið kæru Gámaþjónustunnar í hendur áður en sveitarfélagið fékk hana.
Tilboð bárust í sorphirðuna frá Gámaþjónustunni og Íslenska gámafélaginu og átti Gámaþjónustan lægsta tilboðið. Báðum tilboðum var hins vegar hafnað vegna meints galla á framkvæmd útboðsins.
Á bæjarstjórnarfundinum í gær var samþykkt framlenging á samningi um sorphirðu við Íslenska gámafélagið fram að endurteknu útboði.
Samningurinn var staðfestur með fimm atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista, bæjarfulltrúar B-, S- og V- lista sátu hjá.
Minnihlutinn gerði grein fyrir hjásetu sinni og sagði að í stað þess að hafna þeim tilboðum sem bárust og ógilda útboðið hefði verið hægt að semja við lægstbjóðanda og spara þannig sveitarfélaginu stórar upphæðir og láta reyna á lögmæti þeirra athugasemda sem bárust, við útboðsgögnin.