„Hér er skelfilegt ástand í húsnæðismálum enda ekkert laust húsnæði á staðnum. Því ætlum við að setja niður tíu herbergi fyrir okkar starfsmenn við Dynskála.
Þetta verða gámaeiningar líkt og á Stracta hótelinu, mjög smekkleg herbergi með sameiginlegri aðstöðu og eldhúsi,“ segir Sigurður Árni Geirsson, framleiðslustjóri Reykjagarðs á Hellu aðspurður um byggingarleyfi fyrir gistirýmum fyrir starfsfólk fyrirtækisins.
„Við getum vonandi hafið framkvæmdir í haust og lokið þeim á stuttum tíma þannig að fólkið okkar komist í gott húsnæði áður en veturinn skellur á,“ bætt Sigurður við.
Hjá Reykjagarði starfa um áttatíu manns.