Berglind Hafsteinsdóttir, sjóntækjafræðingur, opnaði í dag verslunina Gleraugna Gallerí að Eyravegi 7 á Selfossi.
„Þetta er gamall draumur hjá mér sem er að rætast núna, að opna mína eigin verslun. Þetta fer mjög vel af stað og viðtökurnar hafa verið góðar í dag,“ sagði Berglind í samtali við sunnlenska.is.
Eftir að hafa útskrifast sem sjóntækjafræðingur í Danmörku árið 2002 flutti Berglind aftur heim til Íslands og hefur síðan þá starfað í gleraugnaverslunum í Reykjavík og á Selfossi.
„Ég legg áherslu á að vera með góð merki, og veita góða þjónustu. Ég er mikið til með danskar umgjarðir, bæði léttar titan umgjarðir en einnig málm og plast. Síðan býð ég upp á sjónmælingar alla daga, linsur og linsumátanir og viðgerðarþjónustu,“ segir Berglind.
Verslunarreksturinn leggst vel í hana en hún er nánast uppalin í þessu húsi þar sem móðir hennar, Bryndís Brynjólfsdóttir, rak verslunina Lindina til margra ára.
„Já, það er mjög gaman að vera hér á þessum stað þar sem ég er skemmtilega tengd þessu húsi, var hér alla mína æsku. Við vorum rúman mánuð að útbúa verslunina og ég er mjög ánægð með útkomuna,“ segir Berglind að lokum.
Í tilefni opnunarinnar verður tilboð á öllum gleraugum í Gleraugna Gallerí til 24. október.