„Við erum ótrúlega spennt að opna loksins hér á Selfossi. Upphaf fyrirtæksins má rekja til þess þegar við opnuðum verslun fyrir ellefu árum síðan í bílskúrnum í húsinu okkar á Selfossi,“ segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir hjá Lindex sem opnaði nýja verslun á Selfossi í dag, rúmri viku á undan áætlun.
„Við vorum auðvitað búin að undirbúa opnunarhátíð 7. ágúst en vegna þess að verslunin var tilbúin og COVID ástandið er eins og það er, þá ákváðum við að opna á undan áætlun og hafa þá opnunina mýkri heldur en annars hefði verið. Við sjáum að það var vel til fundið því við erum búin að vera að taka á móti fjölskyldu og vinum frá því við opnuðum dyrnar og það er gaman að geta deilt gleðinni með þeim,“ segir Lóa Dagbjört.
„Í verslunin starfa að mestu þaulreyndir starfsmenn sem hafa unnið hjá okkur nánast frá því við opnuðum á Íslandi en með opnuninni á Selfossi þurfa þær ekki að keyra lengur á milli enda flestar komnar með fjölskyldur hér heima á Selfossi. Starfsmenn verslunarinnar verða fimm í fullu starfi og sex til sjö í hlutastarfi,“ segir Lóa Dagbjört ennfremur en verslunin á Selfossi er sú stærsta utan höfuðborgarsvæðisins og inniheldur allar vörulínur Lindex, dömu-og undirfatnað og barnafatnað.
Nýjar vörur berast daglega í verslunina á Selfossi en hægt er að fylgjast með á Facebook síðu Lindex Iceland og svo hefur verið stofnaður sérstakur reikningur á Instagram sem tilheyrir versluninni á Selfossi, lx.selfoss, þar sem starfsmenn munu deila tískuráðum, nýjum vörum og fleira.