Í síðustu viku hófust framkvæmdir við gatnagerð í Reykholti í Biskupstungum, í götum sem nefnast Tungurimi og Borgarrimi.
Töluverð uppbygging hefur verið í Reykholti, og reyndar sveitarfélaginu öllu, síðustu misserin en á tæplega tveimur árum hefur verið úthlutað 38 íbúðarlóðum, fyrir einbýlis- par og raðhús, og á þeim munu rísa 70 til 80 íbúðir.
Að sögn Ástu Stefánsdóttur, sveitarstjóra, eru það bæði einstaklingar og verktakafyrirtæki sem sækja um lóðir og eru mörg ferðaþjónustufyrirtæki að koma sér upp íbúðum fyrir starfsfólk. Af þessum 38 lóðum sem úthlutað hefur verið undanfarið eru 26 í Reykholti, tíu á Laugarvatni og tvær í Laugarási.
Nú þegar er búið að úthluta um 15 lóðum við þessar nýju götur, Tungurima og Borgarrima, sem verða byggingarhæfar fyrir lok þessa árs.
Mesta hlutfallslega íbúafjölgunin í Árnessýslu frá 1. desember í fyrra er í Bláskógabyggð en íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað um nærri 7% á þeim tíma, eða um 87 manns og eru íbúar nú 1.243 talsins. Ásta segir að ferðaþjónustan hafi átt í vanda á tímum COVID-19 en nú sé mjög mikið að gera og fjölmörg ný störf hafi orðið til.